""Ég starfaði í þrjú ár við háskólasjúkrahús í Bandaríkjunum og þar uppgötvaði ég hvaða hlutverki stofnfrumur og aðrar frumur í líkamanum geta gegnt við að bæta heilsu fólks,“ útskýrir hann.

Greinin er úr Morgunblaðinu 

(Beitan jg, hér er engin sátt í kerfinu, ég skýri ekki, lesa tveggja rifu tilraunina til að vilja breyta um stefnu)

Í leit að bestu lausninni

Jaroslav Michálek segir stofnfrumumeðferð góðan valkost, ekki síst við krónískum kvillum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Tékkneski læknirinn Jaroslav Michálek hefur um tíu ára skeið stundað stofnfrumulækningar á stofu sinni í Brno og segir árangurinn mjög góðan.

Tékkneski læknirinn Jaroslav Michálek hefur um tíu ára skeið stundað stofnfrumulækningar á stofu sinni í Brno og segir árangurinn mjög góðan. Vel gengur að vinna bót á langvinnum verkjum og vandamálum í liðum en tæknin getur einnig komið að góðum notum við meðferð vegna taugasjúkdóma, krabbameins, heilablóðfalls og fleiri alvarlegra sjúkdóma. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Fundum okkar Jaroslavs Micháleks ber saman á heimili Eggerts Jóhannssonar feldskera í Reykjavík en þeir kynntust fyrr á þessu ári þegar sá síðarnefndi leitaði til tékkneska læknisins á Cellther Clinic í Brno til að freista þess að fá bót við meini í hnjám. Með honum í heimsókninni til landsins er eiginkona hans, Zuzanna.

– Þannig að þú eltir sjúklinga þína um allan heim til að sjá hvernig þeir hafa það? byrja ég á að spyrja.

„Nei, alla jafna geri ég það ekki,“ svarar Jaroslav hlæjandi. „Okkur hjónin hefur langað til að heimsækja Ísland í nokkur ár en það var auðvitað ekki í boði meðan á heimsfaraldrinum stóð. Í mars á þessu ári kom Eggert á stofuna hjá mér og við fórum að tala um landið. Það var því tilvalið að sameina þetta tvennt núna, að heimsækja Eggert og sjá hvernig hann hefur það og skoða þetta fallega land ykkar. Við byrjum hérna í Reykjavík en höldum síðan sem leið liggur eftir þjóðvegi eitt kringum landið og ætlum að skoða áhugaverða staði á leiðinni. Við hjónin höfum bæði mikinn áhuga á fjallgöngum, ám, jöklum og öðru slíku og erum mjög spennt að upplifa þessa einstöku náttúru sem Ísland hefur upp á að bjóða.“

Jaroslav er menntaður á sviði krabbameinslækninga, ónæmisfræði og barnalækninga en undanfarna tvo áratugi hefur hann sérhæft sig í stofnfrumulækningum og endurnýjandi og ónæmisstyrkjandi meðferðum við aldurstengdum kvillum og krabbameini. Við það beitir hann aðferðum sem krefjast ekki mikils inngrips en eru öruggar og árangursríkar, eins og hann lýsir því sjálfur.

Gerði uppgötvun vestra

„Ég starfaði í þrjú ár við háskólasjúkrahús í Bandaríkjunum og þar uppgötvaði ég hvaða hlutverki stofnfrumur og aðrar frumur í líkamanum geta gegnt við að bæta heilsu fólks,“ útskýrir hann.

Meðal þess sem Jaroslav komst að var að stofnfrumur geta komið að góðu gagni í meðferð við verkjum og vandamálum í liðum, ekki síst hnjám og mjöðmum. „Í Tékklandi teljum við að um helmingur allra sem náð hafa fimmtíu ára aldri þjáist af liðverkjum af einhverju tagi og það á ábyggilega við víðar. Meðan ég var í Bandaríkjunum komst ég að því að tilraunir á hundum og veðhlaupahestum bentu til þess að stofnfrumur gætu komið að góðum notum í þessu sambandi. Eftir að ég flutti aftur heim til Tékklands fór ég að skoða þetta betur og fyrir um áratug fékk ég heimild hjá heilbrigðisyfirvöldum til að hefja stofnfrumumeðferð við verkjum af þessu tagi. Stofnfrumurnar sem við notum koma úr sjúklingunum sjálfum; eru sóttar í fituvefi.“

Jaroslav hefur nú meðhöndlað um 3.500 sjúklinga vegna liðverkja og segir árangurinn mjög góðan, sérstaklega hjá fólki sem farið var að þróa með sér liðagigt. „Í mörgum tilfellum var þetta fólk sem liðið hafði þjáningar vikum, mánuðum og jafnvel árum saman en hentaði ekki í liðskiptaaðgerðir vegna þess að það var ekki nægilega langt gengið með sjúkdóminn.“

Aðgerðin fer þannig fram að um 50 milljón stofnfrumur, eða um 50 millilítrar af fitu, eru sóttar í fituvef hjá sjúklingnum. Strax að því loknu er frumunum sprautað í veika liðinn. Að sögn Jaroslavs er það mjög sársaukafullt og fyrir vikið er sjúklingurinn staðdeyfður.

Aðgerðin fer fram í öruggu og sótthreinsuðu umhverfi, þar sem innangengt er frá skurðstofunni yfir á rannsóknarstofuna. „Hætta á sýkingum er lítil sem engin og í öllum þessum aðgerðum okkar hefur engin sýking komið upp. Við gætum fyllstu varúðar.“

Einnig sótt í beinmerg

Í seinni tíð er líka farið að sækja stofnfrumur í beinmerg sjúklinga, sem er einnig fremur einfalt, að sögn Jaroslavs. Beinmergurinn er tekinn úr lífbeininu eða mjöðm og stofnfrumunum síðan sprautað með sama hætti í veika liðinn. „Þetta hefur gefið góða raun,“ segir hann, „og gengur hratt fyrir sig.“

– Hvað tekur aðgerðin langan tíma?

„Um klukkustund í það heila. Við byrjum á því að sækja beinmerginn eða fituna sem tekur mjög stuttan tíma. Síðan þurfum við svona 30 til 40 mínútur á rannsóknarstofunni til að vinna stofnfrumurnar. Að endingu þarf að sprauta þeim á réttan stað.“

Röntgenmyndatöku og segulómun er beitt við greininguna til að finna út hvaða svæði er verst farið. Oftast er það inni í miðjum lið eða úti á hlið, að sögn Jaroslavs. „Oftar en ekki stafar vandinn af skorti á stofnfrumum sem eyðst hafa upp með tímanum. Þær hafa það hlutverk að endurnýja vefi. Sé brjóskið farið að eyðast, í mjöðm eða hné, og sjúklingurinn þjösnast daglega á svæðinu er ekki undarlegt að hann finni fyrir verkjum. Mikilvægt er að grípa inn í ferlið áður en brjóskið er með öllu horfið, því þá er útkoman yfirleitt ekki nægilega góð. Sé eitthvert brjósk enn þá til staðar verður útkoman alla jafna ákjósanleg.“

– Hver hefur árangurinn verið hjá ykkur?

„Við mælum hann eftir hálft ár eða heilt ár og árangurinn er á bilinu 60-90%.“

Þyngdin hefur mikið að segja

Hann segir þyngd sjúklingsins hafa mikið að segja í þessu sambandi, því þyngri sem hann er, þeim mun meira álag á liðina. Einmitt þess vegna skipta mataræði og hreyfing miklu máli fyrir batahorfurnar. Liggi sjúklingurinn í sykri og óhollustu dragi það úr möguleikum hans á að fá bót meina sinna. „Þess vegna ráðleggjum við fólki að fylgja heilsusamlegu mataræði og hreyfa sig. Þá aukast líkurnar á að útkoman verði ekki bara góð, heldur ljómandi góð.“

Ekki er sama hvernig fólk hreyfir sig og Jaroslav mælir sérstaklega með hjólreiðum í bataferlinu enda valdi þær mun minna álagi á liðina en til dæmis hlaup á hörðu undirlagi. Hann ræður fólki einnig eindregið frá því að stunda stökk, fái það þá flugu í höfuðið, enda komi það illa niður á brjóskinu.

C- og D-vítamín geta líka haft góð áhrif á endurhæfinguna, sérstaklega búi fólk í löndum fjarri miðbaug, svo sem á Íslandi, þar sem sólin lætur, eins og við þekkjum, ekki sjá sig eins oft og í suðlægari löndum. D-vítamín skiptir sköpum fyrir vöðvastyrk og hefur einnig sterk tengsl við kalkbúskap líkamans. Því er mikilvægt að fá nægilegt D-vítamín til að styrkja beinin. „Ég skoða þetta alltaf þegar fólk leitar til mín með liðverki. Ýmist eyk ég vítamínskammtana eða sprauta fólk jafnvel með vítamíni. Fólk er alla jafna mjög ánægt með útkomuna, þannig að meðferðin hverfist ekki bara um stofnfrumurnar, heldur líka um lífsstíl fólks,“ segir Jaroslav.

„Ónæmiskerfið í líkama okkar er afrakstur milljón ára þróunar og til að halda því við verðum við að gæta þess að fá þessi mikilvægu vítamín og þau fáum við ekki úr því ruslfæði sem tröllríður heiminum.“

Losna við alls kyns lyf

Sjúklingar sem undirgangast stofnfrumumeðferð og endurhæfingu í kjölfarið geta hætt að taka alls kyns lyf sem þeir hafa tekið að staðaldri við verkjunum. Þá þurfa margir á annars konar lyfjum að halda en eins og Jaroslav bendir á þá geta langvarandi verkir leitt til þunglyndis og kvíða. Spurður hvort stóru lyfjafyrirtækjunum sé það ekki þyrnir í augum, enda missi þau þannig spón úr sínum aski, svarar Jaroslav:

„Lyf eru alla jafna mjög heppileg þegar bregðast þarf við bráðum veikindum, svo sem hjartaáfalli, heilablóðfalli og öðru slíku. Þegar langvinnir sjúkdómar eiga í hlut þarf á hinn bóginn alltaf að taka tillit til hliðarverkana. Lyf geta verið góð til síns brúks en ég hvet fólk samt alltaf til að vera sinn eigin læknir, fræðast og freista þess að tileinka sér grunnatriðin í heilbrigðum lífsstíl, þekkja ónæmiskerfið og svo framvegis. Þannig má best koma í veg fyrir króníska sjúkdóma.“

– Þannig að þú óttast ekki að lyfjaframleiðendur leggi stein í götu þína í framtíðinni?

„Nei, ég sé enga ástæðu til þess. Eins og ég segi þá er ég bara að reyna að finna bestu lausnina fyrir mína sjúklinga. Ef hún felst í stofnfrumumeðferð og náttúrulegum aðferðum þá hljóta allir að fagna því.“

– Hvað með heilbrigðisyfirvöld, eru þau enn þá tortryggin á þessa meðferð?

„Hlutverk mitt og læknastofunnar minnar er að bæta heilsu fólks og árangurinn talar sínu máli. Hljóta menn ekki að taka tillit til þess? Það er ekki mitt hlutverk að gagnrýna heilbrigðisyfirvöld eða lyfjafyrirtæki, heldur að finna bestu lausnina fyrir hvern og einn sjúkling.“

Einfalt fyrir Íslendinga

Jaroslav minnir að Eggert sé þriðji Íslendingurinn sem leitar til hans á stofuna í Brno. „Þegar við vorum að fljúga hingað rann upp fyrir mér hversu einfalt það er fyrir Íslendinga að koma til okkar; þetta er ekki nema fjögurra tíma flug til Vínarborgar og stofan okkar er í um tveggja tíma ökufjarlægð þaðan enda þótt við séum í öðru landi en flugvöllurinn. Brno er bara rétt handan landamæra Tékklands og Austurríkis.“

– Hefurðu ferðast víðar en til Íslands til að kynna þessa meðferð fyrir fólki, eins og þú ert að gera í þessu viðtali?

„Nei, ekki enn sem komið er. Þetta er í fyrsta skipti sem ég geri það og það var svo sem ekki tilgangur ferðarinnar heldur, eins og ég gat um áðan, þá erum við hjónin bara hér í sumarfríi. En hver veit, mögulega á ég eftir að ferðast víðar til að tala um og kynna meðferðina, enda er mikilvægt að sem flestir viti af þessum möguleika.“

Enda þótt mest áhersla hafi verið á liðskiptaaðgerðir til þessa segir Jaroslav stofnfrummeðferðina geta komið að gagni við ýmsum öðrum langvinnum sjúkdómum, eins og taugasjúkdómum á borð við MS og Parkinsons, lungna- og blóðsjúkdómum og krabbameini. Þá sinni læknastofan líka börnum með ýmsa kvilla. Alls eru þessar aðgerðir um 1.500.

„Krabbameinslækningar eru mitt sérsvið og við höfum fengið til okkar fólk sem ekki vill eða þolir ekki lyfjameðferð eða hún hefur ekki skilað árangri og spítalinn segist ekki geta gert meira fyrir viðkomandi. Okkar nálgun er náttúrulegri og markmiðið er að örva ónæmiskerfi þessa fólks.“

Hafa læknað krabbamein

– Hvernig hefur það gengið?

„Það hefur gengið ágætlega. Okkur hefur tekist að lækna fólk af krabbameini. Það er hins vegar erfitt að bera niðurstöðurnar saman vegna þess að fólk kemur til okkar á mismunandi stigum veikinda sinna. Árangurinn getur verið á bilinu 40-100%, myndi ég segja,“ segir Jaroslav en bætir við að stofan sé frekar lítil, þannig að ekki sé um sérlega mörg tilfelli að ræða.

Honum er eitt tilfelli sérstaklega minnisstætt. Það var kona á sjötugsaldri sem glímt hafði lengi við lungnaveikindi og þurfti stöðugt á súrefni að halda. Hún var frá Bretlandi og ferðaðist alla leið til Brno með fjölskyldu sinni í húsbíl vegna þess að hún treysti sér ekki til að fljúga. „Meðferðin heppnaðist mjög vel og 14 mánuðum síðar losnaði hún við súrefniskútinn og gat farið að anda eðlilega.“

Jaroslav nefnir einnig að stofnfrumumeðferð geti hentað ýmsum íþróttamönnum, einkum úr snertigreinum, eins og hnefaleikum, ruðningi, knattspyrnu, íshokkí og fleiri íþróttagreinum, sem orðið hafi fyrir öráverkum á heila. „Hafi þetta átt sér stað sækir oft kvíði og/eða þunglyndi að þessu fólki eða það byrjar að tapa minninu. Ástæðan er örblæðing í heilanum. Vísbendingar eru um að stofnfrumumeðferð geti læknað þetta að fullu, hefjist meðferðin snemma. Þetta getur skipt sköpum enda eru dæmi um að áverkar af þessu tagi geti leitt til örvæntingar og jafnvel sjálfsvíga,“ segir Jaroslav og bætir við að meðferðin virki alla jafna mun hraðar hjá yngra fólki en eldra.

Meðferðin misjafnlega dýr

– Er meðferðin hjá ykkur dýr?

""Það fer eftir ýmsu. Viðmiðunarverð fyrir einn lið, hné eða mjöðm, er 3.900 evrur [558.000 kr.] og sé um tvoi að ræða bætast 2.000 [286.000 kr.] evrur við það, samtals 5.900 evrur [844.000 kr.] . Ef við erum að tala um sjúkling sem fengið hefur heilablóðfall eða þjáist af heilaskemmdum þá eru tölurnar hærri, nær 12.000 evrum [1.716.000 kr.], enda þurfum við þá á talsvert fleiri stofnfrumum að halda.“

Að sögn Jaroslavs dvelst fólk sem kemur erlendis frá að jafnaði þrjár til fjórar nætur á stofunni. Gera þarf ráð fyrir tveimur dögum í ferðalagið til og frá Brno. Fyrsti dagurinn á stofunni fer í ráðgjöf og mat. Á öðrum degi er aðgerðin framkvæmd og á þriðja degi hvílist fólk áður en það getur haldið til síns heima.

Jaroslav heyrir fyrst í sjúklingum sínum eftir þrjá mánuði og svo aftur eftir sex og tólf mánuði. Flestir sem hann meðhöndlar koma frá Tékklandi og Slóvakíu en einnig fær hann marga frá Póllandi, Þýskalandi, Austurríki, Bretlandi, Ítalíu og Norðurlöndunum. Örfáir hafa komið frá öðrum heimsálfum.

Talið berst að lokum að framtíðinni. Jaroslav er bjartsýnn fyrir hönd stofnfrumulækninga. Hann eigi kollega víða um lönd, svo sem í Bandaríkjunum, í Evrópulöndum, Ástralíu, Japan og Víetnam, sem hafi náð góðum árangri. Regluverkið sé misjafnt eftir löndum og framtíð meðferðarinnar velti ekki síst á því að dregið verði úr hömlum. „Það er erfitt að spá um framhaldið. Ég hef til dæmis bara leyfi til að meðhöndla sjúklinga vegna liðverkja en hafi þeir fengið heilablóðfall þarf ég að senda þá til Vínarborgar, þar sem regluverkið er rýmra. Ég vona að þetta komi til með að breytast á næstu fimm árum eða svo. Þegar allt kemur til alls er það þó ekki í mínum höndum. Aðalatriðið er að möguleikarnir eru miklir á þessu sviði og vonandi eru menn í auknum mæli farnir að gera sér grein fyrir því.“

 Til baka

 Leita í greinasafni

 Prenta grein

© Höfundaréttur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband