Hildur Þórðardóttir
Hvað fékk venjulega Þjóðverja til að fylgja Hitler og Sovétmenn Stalín í blindni og drepa þá sem þóttu óæskilegir hverju sinni? Hvað fékk alþýðu-Frakka til að höggva aðalinn háls eftir háls í frönsku byltingunni? Og hvað fékk Evrópumenn, karla og konur, til að brenna á báli konur fyrir það eitt að kunna náttúrulækningar?
Allt var þetta geðugt fólk og kærleiksríkt eins og ég og þú, líklega hjálpsamir nágrannar, vel menntað og greint. Alla vega áður en það gerðist fjöldamorðingjar og líklega á eftir líka þegar lífið varð aftur venjulegt. Hvað þarf til að dáleiða fjöldann og fá fólk til að fremja morð í krafti fjöldans, þrátt fyrir að það stríði gegn gildum þeirra, s.s. um að drepa ekki annað fólk?
Hér er um að ræða hreina og klára múgsefjun, þar sem fólk missir einstaklingseðlið og verður hluti af heild sem gerir alls kyns óafsakanlega hluti.
Belgíski sálfræðiprófessorinn Matthias Desmet hefur rannsakað múgsefjun eða Mass Formation á ensku. Síðustu tvö árin furðaði hann sig á hvað væri að gerast, hvernig hægt væri að loka milljónir manna inni mótþróalaust og þagga niður mótrök, þar til hann áttaði sig. Það var verið að beita okkur múgsefjun. Aftur.
Samkvæmt honum þurfa að vera ákveðnar aðstæður í samfélagi til að múgsefjun takist
- Að einstaklinga upp til hópa skortir djúp tengsl við annað fólk. Rannsóknir undanfarin ár hafa einmitt staðfest hversu margir upplifa sig einangraða og hvernig tölvur og síma hafa minnkað tengsl frekar en styrkt þau.
- Að margir upplifi sig tilgangslausa í samfélaginu og að störf þeirra hafi enga merkingu. Ætli megi ekki tengja fjölda þeirra sem upplifa kulnun og þrot við þetta atriði.
- Að fólk sé fullt af kvíða og ótta og viti ekki af hverju. Fjölmiðlar fræða okkur samviskulega um allan hryllinginn sem er að gerast um allan heim, s.s. endalausa sjúkdómafaraldra, jarðskjálfta, eldgos, flugslys, hryðjuverkaárásir, skógarelda, vonda harðstjóra, hungursneyðir, fyrir utan hina endalausu hættu á kjarnorkustríði. Svo skilja menn ekkert af hverju vanlíðan og ótti eykst.
- Að fólk sé reitt og pirrað og upplifir sig vanmáttugt til að gera nokkuð í því. Til dæmis gæti pirringurinn beinst gegn stjórnvöldum en það er alveg sama hvernig fólkið kýs, niðurstaðan er alltaf sú sama. Það eina sem okkur stendur til boða er að þusa á samfélagsmiðlum og í kommentakerfi fjölmiðla, eða jafnvel standa í rigningu niðri á Austurvelli viku eftir viku, en það hefur engin áhrif svo við verðum bara enn pirraðri.
Eins og glöggir sjá eiga öll þess atriði við og jarðvegurinn því frjór.
Múgsefjun á sér stað þegar fjölmiðlar (eða forsprakkar fyrir tíma fjölmiðla) útvega fjöldanum blóraböggul til að beina þessari uppsöfnuðu reiði og pirringi að. Það er þá einhver sem leiðtogar múgsefjunarinnar vilja losna við, eins og til dæmis innflytjendur, flóttamenn, múslimar, Rússar, óbólusettir, ofbeldismenn, aðallinn, samkynhneigðir eða andlegir hópar. Blóraböggullinn getur líka verið einn maður sem öll andúð beinist gegn, eins og til dæmis Pútín sem fjölmiðlar keppast við að skrifa illa um, líkt og hann einn sé persónulega ábyrgur fyrir stríðinu í Úkraínu. Það er í raun sama hvaða hópur eða einstaklingur það er, svo framarlega sem það sé minni hópur en fjöldinn.
Fjöldinn ræðst á blóraböggulinn og fær þar með útrás fyrir pirringinn og reiðina. Einstaklingar upplifa þá hin langþráðu tengsl, ekki persónuleg tengsl heldur við hjörðina í heild sinni. Þeim finnst þeir loksins samþykktir í einhvern hóp og finna til vellíðunnar. Tengslin við hjörðina verða mikilvægari en persónuleg tengsl og menn hika ekki við að klaga fyrrum vini eða aðra í fjölskyldunni fyrir að fara gegn boðskapnum, því hver sem er ekki í hjörðinni er óvinur. Fólk hættir að treysta hvert öðru og vænissýki grípur um sig.
Óvinurinn getur líka verið veira eins og Covid. Við munum skilaboðin: Við komumst í gegnum þetta saman með því að vera öll heima. Slagorðið Við hlýðum Víði og grímurnar urðu sameiningartákn og þeir sem ekki vildu nota grímur voru augljóslega óvinir sem vildu að fólk dæi. Eftir komu bóluefnanna urðu þeir óbólusettu skotmarkið og kennt um áframhaldandi útbreiðslu veirunnar og dauða fólks.
Múgsefjun getur verið skyndileg eða þaulskipulögð með löngum fyrirvara. En hún endist ekki nema fjölmiðlar mati múginn á frekari eldmati. Þess vegna þarf að koma með nýjar sögur af óvininum ellegar finna nýja og nýja blóraböggla, Alpha, Beta, Gamma, Delta, Omicron o.s.frv.
Í múgsefjun er skilaboðunum komið á framfæri með einhliða áróðri eins og af færasta dáleiðara. Efasemdaraddir eru þaggaðar niður með því að níða skóinn af viðkomandi og gera manneskjuna ótrúverðuga. Fólk er stimplað samsæriskenningasmiðir og skilaboð þeirra upplýsingaóreiða. Það er meira að segja búið að stofna sérstakt embætti á Íslandi, fjölmiðlanefnd, sem á að hjálpa okkur að aðskilja óreiðuna frá hinni samþykktu orðræðu.
Matthias Desmet segir að algjört alræði (Totalitarian dictatorship) ólíkt klassísku alræði, byggist á múgsefjun. Ef alræðisherrann eða -herrarnir fá að starfa gagnrýnislaust, enda þeir á að útrýma öllum. Nýr og nýr hópur verður fyrir barðinu á hjörðinni. Eins og Stalín, sem eftir að hafa látið drepa milljónir af saklausum borgurum, endaði í sjúklegri vænissýki og lét drepa helming eigin flokksmanna.
Þess vegna, segir Matthias, er svo mikilvægt að allir sem sjái í gegnum áróðurinn og múgsefjunina láti í sér heyra, því þannig grynnkum við á múgsefjuninni. Alls ekki með ofbeldi til að gefa ekki yfirvöldum ástæðu til að beita ofbeldi, heldur með því að lauma inn gagnstæðum rökum, til dæmis á kaffistofunni, í fjölskylduboðunum eða með því að deila pistlum og myndböndum á samfélagsmiðlum.
Dropinn holar steininn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.