Esekíel: Lýsing á þyrlu eða flugvél úr Biblíunni. Getur þú teiknað gripinn. Ég set þetta annað slagið inn, ef einhver gæti skilið lýsinguna.
21.5.2021 | 00:50
Esekíel 1
1 Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir.
2 Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur,
3 þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann.
4 Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur, sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, og út úr honum sást eitthvað, sem glóði eins og lýsigull.
5 Út úr honum sáust myndir af fjórum verum. Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim.
6 Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi.
7 Fætur þeirra voru keipréttir og iljarnar sterklegar eins og kálfsiljar, og þeir blikuðu eins og skyggður eir.
8 Og undir vængjum þeirra á hliðunum fjórum voru mannshendur.
9 Vængir þeirra lágu hver upp að öðrum, og ásjónur þeirra fjögurra sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram.
10 Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert.
11 Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.
12 Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni.
13 Milli veranna var að sjá sem eldsglæður brynnu. Það var eins og blys færu aftur og fram milli veranna, og bjarma lagði af eldinum og út frá eldinum gengu leiftur.
14 Og verurnar hlupu fram og aftur eins og glampi af leiftri.
15 Enn fremur sá ég, og sjá: Eitt hjól stóð á jörðinni hjá hverri af verunum fjórum.
16 Og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolít, og öll fjögur voru þau samlík og þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli.
17 Þau gengu til allra fjögurra hliða, þau snerust eigi, er þau gengu.
18 Og hjólbaugar þeirra _ þeir voru háir og ógurlegir _ hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum.
19 Og þegar verurnar gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar verurnar hófu sig frá jörðu, þá hófu og hjólin sig.
20 Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær, og hjólin hófust upp samtímis þeim, því að andi veranna var í hjólunum.
21 Þegar þær gengu, gengu þau einnig, þegar þær stóðu kyrrar, stóðu þau og kyrr, og þegar þær hófust frá jörðu, hófust og hjólin samtímis þeim, því að andi verunnar var í hjólunum.
22 Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra.
23 Og undir hvelfingunni voru vængir þeirra út þandir hver á móti öðrum, og hver þeirra hafði tvo vængi, sem huldu líkami þeirra.
24 Ég heyrði vængjaþyt þeirra, eins og nið mikilla vatna, sem þrumu hins Almáttka, er þær gengu, gnýrinn og hávaðinn var sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.
25 En þytur var uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.
26 En uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, var að sjá sem safírsteinn væri, í lögun sem hásæti, og þar uppi á hásætinu, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki.
27 Sú mynd þótti mér því líkust sem glóandi lýsigull væri þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera og upp eftir, en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi.
28 Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýjum stendur, þegar rignir. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Og er ég sá hana, féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.
2 Hann sagði við mig: "Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig."
2 Þá kom andi í mig, er hann talaði þannig til mín, sem reisti mig á fætur, og ég heyrði til þess, er við mig talaði.
3 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, ég ætla að senda þig til Ísraelsmanna, til hinna fráhorfnu, þeirra er mér hafa gjörst fráhverfir. Þeir og feður þeirra hafa rofið trúna við mig allt fram á þennan dag.
4 Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!`
5 Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum _ því að þeir eru þverúðug kynslóð _ þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.
6 En þú, mannsson, skalt ekki hræðast þá og ekki óttast orð þeirra, þótt netlur og þyrnar séu hjá þér og þótt þú búir meðal sporðdreka. Orð þeirra skalt þú ekki óttast og ekki skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð.
7 Heldur skalt þú tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum, því að þeir eru þverúðin einber.
8 En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð. Lúk upp munni þínum og et það, er ég fæ þér."
9 Ég sá þá, að hönd var út rétt móti mér. Í henni var bókrolla.
10 Og hann rakti hana sundur fyrir mér, og var hún rituð bæði utan og innan, og voru á hana rituð harmljóð, andvörp og kveinstafir.
3 Og hann sagði við mig: "Mannsson, et bókrollu þessa, far síðan og tala til Ísraelsmanna!"
2 Þá upplauk ég munni mínum, en hann fékk mér bókrolluna að eta
3 og sagði við mig: "Þú mannsson, þú skalt renna henni niður í magann og fylla kvið þinn með bókrollu þeirri, er ég fæ þér." Og ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hunang.
4 Þá sagði hann við mig: "Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.
5 Því að þú ert ekki sendur til fólks, er mæli á torskilda tungu,
6 eigi til margra þjóða, er þú skilur eigi, heldur hefi ég sent þig til Ísraelsmanna. Þeir geta skilið þig.
7 En Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.
8 Sjá, ég gjöri andlit þitt hart, eins og andlit þeirra, og enni þitt hart, eins og enni þeirra,
9 ég gjöri enni þitt sem demant, harðara en klett. Þú skalt eigi óttast þá, né skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð."
10 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða.
11 Far síðan til hinna herleiddu, til samlanda þinna, og tala til þeirra og seg við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` hvort sem þeir svo hlýða á það eða gefa því engan gaum."
12 Þá hóf andinn mig upp, en að baki mér heyrði ég dunur af miklum landskjálfta, er dýrð Drottins hófst upp af stað sínum,
13 svo og þyt af vængjum veranna, er snertu hver aðra, og hark frá hjólunum samtímis og dunur af miklum landskjálfta.
14 Og andinn hóf mig upp og hreif mig burt, og ég hélt af stað hryggur og í mikilli geðshræring, og hönd Drottins lá þungt á mér.
15 Og ég kom til hinna herleiddu í Tel Abíb við Kebarfljótið, þar er þeir bjuggu, og ég sat þar sjö daga utan við mig meðal þeirra.
16 Að liðnum sjö dögum kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
17 "Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni.
18 Ef ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt deyja!` og þú varar hann ekki við og segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans, til þess að bjarga lífi hans, þá mun hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.
19 En varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína.
20 Ef hins vegar ráðvandur maður snýr sér frá ráðvendni sinni og fremur ranglæti, og ég legg fótakefli fyrir hann, svo að hann deyr, hafir þú þá eigi varað hann við, þá mun hann deyja fyrir synd sína, og ráðvendni sú, er hann hafði sýnt, eigi til álita koma, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi.
21 En varir þú hinn ráðvanda við syndinni, og hann, hinn ráðvandi, syndgar þá ekki, þá mun hann lífi halda, af því að hann var varaður við, og hefir þú þá frelsað sál þína."
22 Hönd Drottins kom þar yfir mig, og hann sagði við mig: "Statt upp, gakk ofan í dalinn, þar vil ég tala við þig."
23 Þá stóð ég upp og gekk niður í dalinn, og sjá, þar stóð dýrð Drottins, sú hin sama, er ég hafði séð við Kebarfljótið. Þá féll ég fram á ásjónu mína.
24 Og í mig kom andi, sem reisti mig á fætur, og hann talaði til mín og sagði við mig: "Far og loka þig inni í húsi þínu.
25 Og sjá, þú mannsson, menn munu leggja bönd á þig og fjötra þig með þeim, til þess að þú getir eigi gengið út og inn meðal þeirra.
26 Og tungu þína mun ég láta loða við góm þér, svo að þú verðir orðlaus og náir ekki að hirta þá með aðfinningum, því að þeir eru þverúðug kynslóð.
27 En þegar ég tala við þig, mun ég ljúka upp munni þínum, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` Hver sem heyra vill, hann heyri, og hver sem ekki vill gefa því gaum, hann leiði það hjá sér, því að þeir eru þverúðug kynslóð."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.